22. Straumsvík

Straumsvík.Straumsvík er lítil sjávarvík sem gengur inn á milli Kapelluhrauns, sem rann árið 1151, og hrauns frá Hrútagjárdyngju sem er um 6000 ára. Keflavíkurvegurinn liggur við víkurbotninn. Bærinn Straumur stendur við víkina og handan hennar er Álverið í Straumsvík. Þarna eru miklar fjörulindir sem sjást best þegar lágsjávað er en þá flæðir vatnið um þröng hraunsund við ströndina og út í víkina. Á flóði fara lindirnar á kaf og lítil ummerki sjást þá um hið mikla ferskvatnsrennsli. Talið er að um 4000 l/s streymi þarna að jafnaði til sjávar. Fjörulindir eru allvíða á Reykjanesi en hvergi eru þær eins vatnsmiklar og áberandi. Vatnið er úrkomuvatn sem fellur á hraunin upp af Straumsvík. Hluti þess er kominn úr Kaldá fyrir ofan Hafnarfjörð. Kaldá kemur upp í Kaldárbotnum en hverfur aftur í hraunin nokkru neðar. Vatnið birtist síðan á ný í Straumsvík. Annar grunnvatnsstraumur kemur frá Kleifarvatni. Við Þorbjarnarstaði hjá Straumsvík eru tjarnir sem flóðs og fjöru gætir í. Við innstu tjörnina er Gvendarbrunnur. Mikið er um krækling í Straumsvík og töluvert fuglalíf. Þar finnst einnig sjaldgæft afbrigði af bleikju, dvergbleikja, sem þarna lifir í hraungjótum á mörkum ferskvatns og sjávar.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Straumsvík.Lindirnar sjást vel frá Keflavíkurveginum en best er að ganga að þeim frá veginum sem liggur að álverinu. Skemmtilegast er að skoða þær á stórstraumsfjöru.

Árni Hjartarson, 2010