21. Hrútagjá - risfláki

Gígsvæðið í Hrútagjárdyngju.Við norðanverðan Sveifluháls, um 2 km vestan Vatnsskarðs, eru upptök dyngju sem heitir Hrútagjárdyngja. Hún dregur nafn sitt af gjá sem liggur umhverfis gígsvæðið. Er þarna um sérstæða myndun að ræða sem vert er að skoða. Hraunin frá Hrútagjá hafa breytt úr sér til norðurs og runnið til sjávar vestan Hafnarfjarðar, á milli Vatnsleysuvíkur og Hvaleyrarholts. Hraun í svonefndum Almenningi, suður af Straumsvík, eru að mestu frá Hrútagjárdyngju komin. Myndarlegir gervigígar eru í hrauninu skammt sunnan Reykjanesbrautar sem myndast hafa þegar hraunið rann yfir sjávarset. Samkvæmt gjóskulagarannsóknum er Hrútagjárdyngjan um 6000-6500 ára gömul og er ein af þeim yngri á Reykjanesskaganum. Sjáanlegt flatarmál dyngjunnar er um 80 km2 og rúmmál hefur verið áætlað rúmir 3 km3. Um lágmarkstölur er að ræða en dyngjan er að stórum hluta hulin yngri hraunum.

Gígsvæði Hrútagjárdyngju er hraunslétta með gapandi gjám á þrjá vegu.

Gígurinn sjálfur er óreglulegur með 10-14 m háa, bratta gígbarma. Gígurinn er opinn til suðurs og hefur hraunið aðallega runnið í þá átt. Um 10 m djúpur sigketill er skammt norðvestan aðalgígsins. Undir lok gossins hefur kvika troðist undir gígsvæðið og belgt það upp og hraunbunga (hraunfyllt kýli) myndast. Hún hefur verið allt að 30 m há. Ljóst er að yfirborð hraunsins hefur verið storknað er kvikan fór að lyfta því. Síðar hefur kvikan fengið útrás um hraunrásir eða slokast ofan í gosrásina og yfirborð hraunbungunnar þá sigið. Sprunga hefur myndast umhverfis gígsvæðið (vestan megin heitir hún Hrútagjá) og það tekið á sig núverandi mynd. Löngu síðar hefur gossprunga opnast á gígsvæði Hrútagjárdyngju og skilið eftir sig talsverðan hraunflekk.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Hrútagjá.Ekið eftir Djúpavatnsleið, um Sandfellsklofa og upp brekkuna vestan við hann. Þar er bifreiðastæði og stígur frá því upp á Hrútagjádyngju.

Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010

Ítarefni

  • Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). Orkustofnun OS-JHD-7831, 303 bls. (greinargerð ásamt kortum).
  • Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2010). Reykjanesskagi. Í: Freysteinn Sigmundsson, o.fl. (ritstj.), Náttúruvá á Íslandi – eldgosavá. Handrit til útgáfu.