20. Lambafellsgjá - bólstraberg

Lambafellsgjá.Norðan við Eldborg við Trölladyngju er lágt, ávalt fell er nefnist Lambafell. Syðst í því eru virk háhitaaugu. Eftir fellinu er slakki eða lág brún sem opnast í hrikalegri gjá sem nefnist Lambafellsgjá. Gjáin er aðeins nokkurra metra víð og mesta dýpi er um 50 metrar. Gjáin opnast út á jafnsléttu í norðurenda fellsins. Hægt er að ganga eftir gjánni endilangri. Auðveldast er að fara upp í fellið að sunnanverðu og ganga niður gjánna. Þar er bratt og nokkuð laust undir fæti en engin mannhætta. Í veggjum gjárinnar sést bólstraberg sem fellið er byggt úr.

Gjá þessi er vafalaust að stórum hluta mynduð við umbrot á nútíma en fellið sjálft virðist aldið og hugsanlega frá næstsíðasta jökulskeiði eða jafnvel eldra.

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort yfir Lambafellsgjá.Farið inn veginn að Höskuldarvöllum og sveigt af honum norðan við Trölladyngju og ekið á bílastæði við Eldborg. Gengið austan Eldborgar og að Lambafelli. Gangan tekur um eina klukkustund.

Haukur Jóhannesson, 2010