18. Stóra-Eldborg - eldborg

Eldborg (Stóra-Eldborg) sunnan við Geitahlíð er dæmi um gíg af eldborgargerð. Gígarnir eru raunar tveir, báðir með eldborgarlögun. Gígar þessir eru á gossprungu með þrem smágígum milli eldborganna og Geitahlíðar. Norðan við Geitahlíð heldur gígaröðin áfram. Eldborgir myndast kringum hrauntjörn af hraunbráð sem fellur úr miðlægum gosstrók, eins og hér, eða smástrókum í tjörninni og hlaða upp kamb allt umhverfis, brattastan efst. Hér er kamburinn úr 5-10 cm þykkum hraunskeljum, líkustum hraunbelti hver og ein, blöðróttar efst en þéttari neðar. Hraun getur runnið yfir gígbarminn og svo var hér um skarð austan í móti. Hrauntraðir eru þar niður undan og sömu þunnu hraunskeljarnar í börmum þeirra.

Hraunið úr Eldborg er mjög ólivínríkt helluhraun. Það hefur runnið til sjávar fram af Krýsuvíkurbergi austast. Aldur þess er ekki þekktur en miðað við þykkan jarðveg, framburð á því og áhrif frostveðrunar á yfirborð þess gæti það verið 7000-8000 ára. Nánasta hliðstæða við Stóru-Eldborg er Búrfell ofan við Hafnarfjörð.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Stóru-EldborgÖrstutt ganga er frá Suðurstrandarvegi upp í eldborgina. Líklega best að skilja bíl eftir á veginum að litlu Eldborg sunnan Suðurstrandarvegar.

Kristján Sæmundsson, 2010