18. Eldhraun

EldhraunMývatnseldar 1724-1729 hófust með nokkrum gliðnunarhrinum. Eftir fylgdu fjögur hraungos. Þrjú þau fyrstu stóðu í viku, eða þar um bil, líkt og í Kröflueldum, en það síðasta í þrjá mánuði. Þá rann Eldhraun, helluhraunið milli Reykjahlíðar og Grímsstaða, ofan eftir fornum vatnsfarvegi, Eldá, og eyddi þrem bæjum. Einn af þeim var Reykjahlíð. Húsin sem þar eru nú standa rétt við hraun-jaðarinn og sum á hrauninu en kirkjuhóllinn varð að óbrennishólma. Eldra hraun hafði 8000 árum fyrr runnið sömu leið og nær það að Grímsstöðum og út í Slútnes. Helluhraun sem þessi runnu í langvarandi lokafasa eldanna. Rennsli í slíkum eldgosum er margfalt minna en í hinum stuttu goshrinum. Þau renna langar leiðir í lokuðum rásum og mynda helluhraun gagnstætt hinum sem oft renna í opnum hrauntröðum og mynda apalhraun.

 

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Eldhrauni.Eldhraunið sést vel við Reykjahlíð í Mývatnssveit, merkt nr. 18 á kortinu.