17. Seltún - háhitasvæði

Seltún í Krýsuvík.Seltúnshverir kallast hveraþyrping neðst í lækjarskorningi sem margir skoða, enda við alfaraveg. Fyrir rúmri öld var þar miðstöð brennisteinsvinnslu og fyrir um hálfri öld einn helsti vettvangur borana í Krýsuvík. Þarna eru gufu- og leirhverir og heit jörð umhverfis. Nokkuð er um heiðgulan brennistein en einnig gulleit og hvít hverasölt. Þau þekkjast frá brennisteini á beisku bragði en hverfa að mestu í rigningartíð.

Fúlipollur heitir víð hveraskál austan vegarins en dautt er í honum nú. Kraumandi leirhverir eru fast við veginn aðeins norðar. Gamlir borpallar eru við lækinn vestan við göngustíginn. Borholan í öðrum þeirra reif sig upp í gos veturinn 2010 en dagar liðu og líða enn milli gosa. Úthlaupi fyrir gosin er beint til hliðar yfir lækinn. Gufusprenging varð í annarri borholu neðst í brekkunni austan við stíginn í nóvember 1999. Hún myndaði gíg um 30 m í þvermál. Úrkastið, leir og grjót, barst inn með hlíðinni til norðausturs og gulleitur hroði situr enn á brekkunni.

Vatnið í hverunum er yfirborðsvatn. Það hitnar af gufu sem sýður upp af jarðhitageyminum undir og þéttist í því. Gastegundir, einkum brennisteinsvetni, fylgja með. Þær sýra yfirborðsvatnið og leysa bergið sundur í leir. Aðeins efstu 300 metrar jarðhitakerfisins undir Seltúnssvæðinu eru í suðu, þ.e. fylgja suðumarksferli með dýpi. Þar fyrir neðan kólnar. Það bendir til flatrennslis frá uppstreymi til hliðar.  

Aðgengi

Staðsetningarkort af Seltúni.Ekið er eftir Krýsuvíkurvegi og á bílastæði við Seltún. Þar er nýtt þjónustu- og salernishús. Göngustígar eru um hverasvæðið.

Kristján Sæmundsson, 2010