17. Hrafntinnuhryggur

HrafntinnuhryggurHrafntinnuhryggur er 2 km á lengd og 100 m hár, myndaður á norður-suður sprungu sunnan Kröflu. Hryggurinn er úr líparíti og mikil hrafntinna er utan í honum og í eitlum og gangbríkum sem upp úr honum standa. Samkvæmt aldursgreiningu er hann um 20.000 ára, þ.e. myndaður kringum hámark síðasta jökulskeiðs.

Hrafntinna er líparítgler myndað við hraða kólnun bráðar. Hún finnst þarna alveg hrein, þ.e. laus við kristalla og gasbólur sem annars eru algengar, enda breytist berggerðin stig af stigi frá hrafntinnu í ljósgrátt líparít.

Röð af sprengigígum er vestan undir Hrafntinnuhrygg og tjörn í þeim stærsta. Hveraleir er kringum tjörnina og gufuhverir í hryggnum sjálfum þar norður af. Annar minni hryggur er vestan við Hrafntinnuhrygg sunnarlega. Ljóst er að líparítkvika hefur verið til staðar austan megin í kvikuhólfi Kröflu í meira en 20.000 ár. Borholur sunnan og vestan við Kröflu hafa lent í henni á rúmlega 2000 m dýpi.

Aðgengi

Staðsetningarkort af  Hrafntinnuhrygg.Hrafntinnuhryggur er sunnan Kröflu og merktur nr. 17 á kortinu.