13. Vestan Selatanga - tæmd hrauntjörn

Hraunið vestan við Selatanga er úr Moshólum, sundurgröfnum gjallgígum við veginn neðst í hraunsundinu milli Móhálsa. Moshólar eru ysti parturinn af gígaröð sem nær inn fyrir Trölladyngju. Aldur hennar er um 2000 ár. Þekktasta hraunið úr henni er Afstapahraun. Veiðistöðin gamla á Selatöngum er þar sem hraunið úr Moshólum og Ögmundarhraun koma saman. Þar er dálítið var í smáviki.

Katlahraun heitir í Moshólahrauninu (ekki örnefni) þarna vestur af. Í því eru tvær stórar bungur úr helluhrauni skammt vestur af Selatöngum. Hraun hefur safnast í þær en síðan hlaupið undan fram í sjó og miðsvæðið í þeim sigið og 10-20 m hár veggur staðið eftir umhverfis. Stöku strípar standa eftir í siglægðinni. Innveggir eru ýmist hrunskriða eða húðaðir hraunbrynju, svo einnig stríparnir. Helluhraunið í botni er ýmislega beyglað og brotið. Þessi tæmda hrauntjörn minnir á Dimmuborgir í Mývatnssveit en sá munur er að þær eru gervigígamyndun og hér vantar gjallið sem einkennir þær.

Aðgengi

Staðsetningarkort Vestan SelatangaBeygt er til suðurs frá Suðurstrandarvegi á mós við Núpshlíð og ekin slóð sem liggur niður að Selatöngum. Hrauntjörnin en vestan við vikið sem veiðistöðin er í.

Kristján Sæmundsson, 2010