13. Gjávella

GjávellaGjávella er heiti á fyrirbrigði úr hrauni vestan Hrútafjalla.

Í Kröflueldum kom fyrir að hraun rynni ofan í gjár og langa leið eftir þeim og fylgdu stundum gufusprengingar og grjótkast. Þegar gaus í júlí 1980 rann allt hraun sem upp kom í Snagaborgum í 17 klst. ofan í gjá sunnan við Hrútafjöll. Fossbrúnin á gjánni mældist 170 m. Einnig kom fyrir að hraun rynni upp úr gjánum annars staðar, jafnvel í margra km fjarlægð. Þetta fyrirbrigði kallast gjávella.

Dæmi um slíkt má sjá vestan við Hrútafjöll. Þar hefur hraunspýja lekið upp úr gjá án þess að gjall frussaðist með en óvíst er hversu sunnarlega rann ofan í hana.

Þetta gerðist einnig í Hverfellseldum fyrir um 2700 árum en þá gaus í Éthólum. Hraun úr þeim rann í siglægð Gjástykkis sem þá hafði gliðnað í næstum 10.000 ár án þess að hraun jöfnuðu yfir. Því var greið leið ofan í gjárnar. Hraunið rann fram úr gjá skammt ofan byggðar í Kelduhverfi. Þar heitir Kerlingarhóll. Hraunið sem þar kom upp er um 13 km2  að stærð og er kallað Skinnstakkahraun.

Aðgengi

Staðsetningarkort af Gjávellu.