11. Hrólfsvík - hnyðlingar

Yfirlitsmynd úr fjörunni.Hrólfsvík er þekktur fundarstaður hnyðlinga. Hnyðlingar eru aðskotasteinar sem kvika hefur hrifið með sér í gosum. Ein gerð þeirra er úr gabbrói og svo er um hnyðlingana í Hrólfsvík. Þar eru þeir í hraunlagi, eða öllu heldur í hraunbelti, og krökkt af þeim á litlum kafla austanvert í víkinni. Ekki er vitað um upptök hraunsins. Ofan á því er sandur og möl sem best sést í lágum sjávarbakka. Áhorfsmál er hvort jökull hefur gengið yfir það. Hnyðlingarnir eru ýmist rúnnaðir eða kantaðir. Í þeim er aðallega feldspat en mikið ólivín í sumum. Þeir gætu verið úr botnfalli kvikuinnskots sem var byrjað að storkna en kvika hreif svo með sér eftir viðdvöl í neðra.Skorpan undir Reykjanesskaga er úr gosbergi og minni háttar innskotum niður á 5-6 km dýpi en þar undir innskotsbergi, fyrst berggöngum og síðan gabbrói. Vel mega gabbróhnyðlingarnir vera úr gabbrólaginu.

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Hrólfsvík.Örstutt ganga er frá Suðurstrandarvegi niður í Hrólfsvík.

Kristján Sæmundsson, 2010