10. Skálafell - jarðskjálftasprungur

Skálafell hefur hlaðist upp í nokkrum gosum á gossprungum og aldursmunur á þeim er mikill. Toppgígurinn í því er klepragígur af eldborgargerð. Hann varð til í því yngsta, líklega fyrir rúmum 3000 árum. Kringum toppgíginn eru jarðföll (skálarnar?) þar sem runnið hefur undan. Af þeim toga er einnig smáhellir suður úr toppgígnum.

Elstu hraunlögin úr Skálafelli, yfir 8000 ára, sjást í misgengisstalli austan við fellið og í sjávarklettum (Krossvíkurberg). Brotstallar eru stórir í gömlu hraununum en í yngsta hrauninu rétt mótar fyrir þeim. Misgengi þessi takmarka siglægðina á Reykjanesi að austan. Tilsvarandi misgengi á móti eru vestur við Kinn og við táknræna brú yfir flekaskilin. Þar á milli eru 5 km.

Á hraunsléttu kippkorn norðaustan við Skálafellsbunguna eru gömul hraun úr Skálafelli og í þeim slitróttar gjár með norð-suðlægri stefnu. Færsla á þeim er lárétt til hægri þegar horft er þvert yfir þær. Einkenni þeirra eru uppskrúfaðir sprunguhólar þar sem sprungubútarnir hliðrast til.

Aðgengi

Staðsetningarkort af Skálafelli.Styst er að ganga á Skálafell frá bílastæði við Gunnuhver.

Kristján Sæmundsson, 2010