[x]

1. Básendar - Básendaflóð

Básendar á Reykjanesi.Eitt mesta sjávarflóð sem orðið hefur við Íslandsstrendur, Básendaflóðið, er kennt við Básenda á Reykjanesi. Básendar var gamall verslunar- og útróðrarstaður skammt sunnan við Stafnes og þekktur frá fornu fari. Þar eru grágrýtisklappir við sjóinn og grýttar fjörur.  Ströndin öll liggur fyrir opnu hafi en smávíkur og básar gera veitt bátum og smærri skipum var. 

Básendaflóðið varð aðfaranótt 9. janúar 1799. Þetta var stórstraumsflóð samfara lágum loftþrýstingi og aftakaveðri af hafi en við slíkar aðstæður magnast flóðbylgjan. Á Básendum gekk hún langt á land og hreif með sér verslunarhúsin og flest önnur hús á staðnum, eyðilagði lendinguna og braut alla báta sem þar voru í naustum. Margir sluppu naumlega úr flóðinu en gömul kona drukknaði. Þá urðu einnig gríðarmikil flóð og eignatjón víða við Suður- og Vesturland allt frá Þjórsárósi til Barðastrandar.

Í Reykjavík gekk sjór yfir nesið vestan við Lambastaðahverfið svo Seltjarnarnesið var sem eyja í hafinu. Fátítt er að slíkt gerist en átti sér þó stað 1936 í Pourquoi Pas veðrinu fræga. Bærinn Breið, sem var yst á Akranesi, gereyddist, bæði hús og tún. Talið er að 187 skip og bátar hafi eyðilagst eða stórskemmst en engin sjóslys urðu þó. Fárviðri var að suðvestri þessa nótt þannig að það var ekki einungis sjávargangurinn sem olli eyðileggingu. Kirkjurnar á Hvalsnesi og Nesi við Seltjörn fuku af grunni og brotnuðu í spón og kirkjurnar á Kirkjuvogi og Kálfatjörn stórskemmdust .

Miklar breytingar urðu víða við ströndina, sjávarkambar hurfu og nýir urðu til og grandar og eiði tóku stakkaskiptum. Erfitt er að meta flóðhæðina en þó eru ýmsar vísbendingar í tjónalýsingum. Í skýrslu um tjónið á Básendum er sagt að sjór hafi komist 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur hafi skolast upp á húsþak og liggi þar 4 álnum yfir jafnsléttu. Geir biskup Vídalín sem bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi áleit „að 5 álnum [3 m] hefði sjór gengið hærra, þverhnýptu máli, en í öðrum stórstaumsflóðum“. Breidd flóðsins innan við Lambastaði mældist 300 faðmar (áln 0,63 m, faðmur 1,88 m). Í Staðarsveit á Snæfellsnesi gekk sjórinn alstaðar meira en 560 m lengra á land en í eðlilegum stórstraumi og allt upp í 2800 m. Í dag eru ummerki Básendaflóðsins hvergi glögg. Þrátt fyrir það eru þetta mestu hamfarir af völdum sjávarfalla sem vitað er til að hafi orðið við Ísland á sögulegum tíma.

Aðgengi

Staðsetningarkort af Básendum.Auðveldast er að komast að Básendum eftir veginum frá Sandgerði að Stafnesi og ganga síðan frá merktu bílastæði þaðan. Þar sjást enn tóftir staðarins og gamlir grjótgarðar enda hefur sjór ekki gengið yfir svæðið síðan í Básendaflóði.

Árni Hjartarson, 2010